Uppgjöri frestað vegna sumarleyfa
Stjórnir fjárfestingarfélaganna Afls og Atorku tilkynntu í gærmorgun að "vegna erfiðleika með að ná stjórnum saman" muni félögin ekki birta sex mánaða uppgjör fyrr en í fyrstu viku ágústmánaðar. Bæði félögin eru skráð í Kauphöll Íslands. Í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka í gær er gerð athugasemd við þetta og sagt að "ætla mætti að varamenn væru til staðar í forföllum stjórnarmanna". Atli B. Guðmundsson hjá greiningardeildinni segir að það sé óheppilegt að nánari upplýsingar um slíka frestun hjá skráðum hlutafélögum séu ekki gefnar. Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Afls og Atorku, segir að ástæða þess að erfitt sé að koma saman stjórnarfundi séu sumarleyfi og að Kauphöll Íslands hafi enga athugasemd gert við tilkynningu félagsins. Páll Harðarson hjá Kauphöll Íslands staðfestir að engar athugasemdir hafi verið gerðar. "Það þarf að tilkynna svona lagað með minnst viku fyrir áður áætlaðan birtingardag og það var gert í þessu tilviki og gott betur," segir hann.