Skoðun

Til móts við nýja tíma

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skrifar
Árið 2007 ber með sér vonir og væntingar um nýja tíma. Það liggur í loftinu að nú sé kominn tími til að breyta. Þessi áramót marka upphaf kosningaárs og síðasta kjörtímabil ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er senn á enda. Sú stjórn hefur lokið hlutverki sínu. Eftir kosningarnar í vor er tækifæri til að mynda nýja ríkisstjórn. Ég er sannfærð um að flestir vilja frjálslynda jafnaðarstjórn. Hún verður ekki til án Samfylkingarinnar.

Þjóðin á betra skiliðAlvarleg mistök og röng forgangsröðun hafa einkennt þetta kjörtímabil. Siðferðisbrestur stjórnvalda í Íraksmálinu er óuppgerður, gömul hleranamál fást ekki upplýst, varnarviðræðurnar voru klúður frá upphafi til enda, valdi hefur verið misbeitt, hagstjórn setið á hakanum, átök við lífeyrisþega hafa verið árviss atburður, skattbyrði hefur þyngst hjá þorra fólks og misskipting auðs og tekna hefur aukist meira en í flestum öðrum löndum.

Hagstjórnarmistök hafa valdið miklum sveiflum í efnahagslífinu og flóttinn frá krónunni hefur sett svip sinn á nýliðið ár. Allir sem einhvers mega sín s.s. stórfyrirtæki og efnamenn taka sín lán í evrum eða öðrum erlendum myntum á hóflegum vöxtum. Eftir situr íslenskur almenningur með krónulán – ýmist vísitölutryggð eða á okurvöxtum. Höfuðstóll húsnæðislána hækkar ár frá ári vegna verðbólgunnar þó stöðugt sé greitt af lánunum. Þessi kostnaður vegna hagstjórnarmistaka mun fylgja húsnæðiskaupendum inn í framtíðina.

Einstaklingar og smáfyrirtæki sem ná ekki endum saman um mánaðarmót greiða þó hæsta reikninginn. Í nóvember sl. námu yfirdráttarlán til fyrirtækja um 112 milljörðum og til heimila 70 milljörðum. Af þessum lánum eru nú greiddir 21-23% okurvextir sem þýðir að vaxtabyrði fyrirtækjanna er um 24 milljarðar og heimilanna um 14 milljarðar. Ég fullyrði að það er engin betri kjarabót til fyrir íslenskan almenning en að losna undan verðtryggingu og því vaxtaokri sem fylgir íslensku krónunni. Raunvextir á evrusvæðinu eru 1.2-2.2%. Lægra skatthlutfall í tekjuskatti og virðisaukaskatti er hjóm eitt í þeim samanburði.

Þeir sem hafna allri umræðu um aðild að Evrópusambandinu verða að svara því af hverju íslenskur almenningur á að greiða fórnarkostnaðinn af því að halda hér uppi sjálfstæðri mynt.

Erindi nýrrar ríkisstjórnarMikil verkefni bíða nýrrar ríkisstjórnar á sviði velferðarmála. Mikilvægast er að leysa vanda allra þeirra öldruðu hjúkrunarsjúklinga sem fá enga úrlausn eða þurfa að deila herbergi með öðrum á hjúkrunarheimilum. Þetta er vanvirðing við þá kynslóð sem byggði upp íslenskt velferðarsamfélag. Verkefnið þolir enga bið.

Hnattvæðingin hefur birst okkur Íslendingum með afgerandi hætti. Annars vegar með mikilli útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði og hins vegar með verulegri fjölgun erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði. Hvort tveggja hefur stuðlað að verðmætasköpun og bætt lífskjör Íslendinga.

Hnattvæðingin er staðreynd og felur í sér ótal tækifæri fyrir íslenska þjóð ef við tökum skynsamlega á málum. Hún gerir hins vegar kröfur til þess að við fjárfestum umtalsvert í grunngerð samfélagsins – ekki síst samgöngum og menntun – og komum á því jafnvægi í atvinnu- og efnahagsmálum sem getur rennt stoðum undir atvinnulíf framtíðarinnar, hátækni og aðrar þekkingargreinar.

Félagsleg undirboð á vinnumarkaði og þ.a.l. lakari lífskjör geta fylgt auknu aðstreymi vinnuafls en raunhæfasta leiðin til að takast á við það er að tryggja innflytjendum og innfæddum sömu réttindi á vinnumarkaði og sömu laun fyrir sömu vinnu.

Íslenskt samfélag er ekki komið inn í 21. öldina í samgöngumálum. Þrátt fyrir stóraukna umferð á vegum landsins og 40% hækkun skatttekna ríkissjóðs af ökutækjum landsmanna hafa framlög til vegamála dregist saman um fjórðung á kjörtímabilinu. Mörg svæði á landsbyggðinni búa við skerta grunnþjónustu vegna skorts á samgöngum og öryggi á vegum úti er verulega ábótavant. Ný ríkisstjórn þarf að hefja stórsókn í vegamálum, svo jafna megi aðstöðu landsmanna óháð búsetu.

Vel menntað fólk er mikilvægasta auðlind hverrar þjóðar. Ísland á að vera í fremstu röð og verður þ.a.l. að fjárfesta skynsamlega í menntun til að mæta þörfum nýrra tíma. Samfylkingin hefur sett fram tillögur í menntamálum sem byggjast á þeirri grundvallarhugsun að allir geti lært og eigi að fá tækifæri til þess. Tillögurnar fela í sér átak gegn brottfalli, nýtt tækifæri fyrir fólk með litla formlega menntun, aukið frelsi í rekstri og námsframboði framhaldsskólanna, öflugra háskólastig og markvissan stuðning við rannsóknar- og þróunarstarf.

Síðast en ekki síst þarf þjóðin ríkisstjórn sem getur stuðlað að breiðri sátt um náttúruvernd og orkunýtingu. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa dregið taum stóriðju allan síðasta áratug og þeim er einfaldlega ekki treystandi til að skapa sátt milli andstæðra sjónarmiða í þessu mikilvæga hagsmunamáli okkar og komandi kynslóða.

Samfylkingin tókst á við þetta erfiða verkefni og er eini flokkurinn sem hefur sett fram raunhæfar tillögur til sátta. Sú skýra stefna sem birtist í Fagra Íslandi er vegvísirinn sem við þurfum. Þar er lagt til að lokið verði gerð rammaáætlunar um náttúruvernd sem myndi tryggja að í fyrsta sinn lægju fyrir lykilupplýsingar um verðmæt náttúrusvæði í landinu, svo forða megi því að teknar séu ákvarðanir um að fórna fágætum náttúruperlum á grundvelli vanþekkingar.

Breytingar í vorSamfylkingin gengur bjartsýn til kosninga í vor vegna þess að hún hefur unnið heimavinnuna sína. Við höfum lausnir á þeim vandamálum sem blasa við. Við höfum skýra framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag með hugsjónir jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti og samábyrgð að leiðarljósi. Við erum tilbúin að leiða nýja ríkisstjórn sem tekst á við krefjandi verkefni af ábyrgð og stjórnfestu

Við skynjum að kjósendur kalla á breytingar og nýjar lausnir. Við erum tilbúin!

Ég óska landsmönnum öllum árs og friðar, þakka samfylgdina á liðnu ári og hlakka til samstarfsins á því ári sem nú fer í hönd.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×