Spænski körfuboltamaðurinn Paul Gasol hefur hafið æfingar á nýjan leik með liði sínu Memphis Grizzlies í NBA-deildinni eftir að hafa fótbrotnað í Heimsmeistarakeppninni sem fram fór í sumar. Búist er við því að Gasol byrji að spila innan fárra vikna.
Gasol hefur verið sárt saknað það sem af er leiktíðar, enda var hann langbesti leikmaður liðsins á síðasta tímabili. Án hans hefur Memphis aðeins unnið fjóra leiki það sem af er NBA-tímabilsins en tapað 11 leikjum. Forráðamenn félagsins vonast til þess að gengi liðsins snúist til betri vegar nú þegar Gasol er kominn aftur.
"Læknar hafa gefið honum grænt ljós á að byrja að æfa en við vitum ekki hvenær hann spilar sinn fyrsta leik. Vonandi verður það um miðjan þennan mánuð," segir Mike Fratello, þjálfari Memphis.