Skoðun

Um ódýrar eftirlíkingar

Framsóknarmenn virðast hafa fyllst hreinni örvæntingu ef marka má yfirlýsingar þeirra á flokksþingi sínu um helgina. Þar kallast á rangfærslur og tilraunir til þess að eigna sér stefnumál annarra flokka, einkum Samfylkingarinnar.

Í ræðu sinni hélt Jón Sigurðsson því fram að Framsóknarflokkurinn hefði átt frumkvæði að lagasetningu um starfsemi stjórnmálaflokkanna og takmörkun á auglýsingum. Þetta er makalaus fullyrðing í ljósi þess að Samfylkingin og hinir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa barist fyrir lagasetningu af þessu tagi um árabil og það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem lagði til við formenn flokkanna fyrir áramótin að samkomulag yrði gert um takmarkanir á auglýsingum. Framsóknarmenn voru ekki tilbúnir í slíkt samkomulag þá fremur en Sjálfstæðisflokkurinn.

Framsóknarflokkurinn samþykkti ýmsar ályktanir á flokksþingi sínu og margt kemur okkur jafnaðarmönnum þar kunnuglega fyrir sjónir. Þar má nefna gömul baráttumál okkar eins og jöfnun atkvæðisréttar, að hluta námslána verði breytt í styrki og afnám stimpilgjalda. Framsóknarmenn taka þessi mál nú upp á sína arma og allt í fínu með það. Það er hins vegar góð latína að geta heimilda þegar menn fá lánað frá öðrum. En því er ekki að heilsa, Jón Sigurðsson kvittar upp á lánið með því að saka aðra flokka um ódýrar eftirlíkingar! Það má Jón eiga að hann slær hér frumlegan tón en málflutningur hans verður seint talinn traustvekjandi.

Framsóknarflokkurinn í félagi við Sjálfstæðisflokk ber ábyrgð á stuðningsyfirlýsingu við Íraksstríðið, yfirþyrmandi stóriðjustefnu, sviknum loforðum við eldri borgara og öryrkja, Byrgismáli, ofþenslu í efnahagslífinu sem leggur þungar byrðar á heimilin í landinu, himinháu húsnæðisverði og loks kosningaloforðum sem losa nú tæpa 400 milljarða króna og munu binda hendur næstu og þarnæstu ríkisstjórnar. Þessi frammistaða er ekki til fyrirmyndar og hverfandi hætta á eftirlíkingum enda flýja nú Framsóknarmenn flórinn og leita í smiðju okkar jafnaðarmanna. Verið velkomnir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×