Skoðun

Rökþrota Illugi

Árni Finnsson skrifar
Árni Finnsson skrifar um loftslagsmál

Rökþrota stjórnmálamenn vísa gjarnan í þjóðarhagsmuni – eins og rétt þjóðarinnar til að nýta eigin auðlindir – án frekari skýringa eða rökstuðnings; fyllast þjóðrembingi. Það gerði Illugi Gunnarsson í grein hér í Fréttablaðinu mánudaginn 9. mars.

Til skamms tíma var Illugi helsti talsmaður efasemdarmanna um að loftslagsbreytingar væru raunverulegar – efaðist um að þær ættu sér stað og að kenningar þar að lútandi byggðu á traustum vísindum. Ásamt Hannesi Hólmsteini vísaði Illugi gjarnan í fullyrðingar þeirra „fræðimanna“ sem hafa verið á mála hjá kola- eða olíuiðnaðinum í Bandaríkjunum. Það þóttu honum traust vísindi. Umrædd grein Illuga er enn eitt dæmi um fávísi hans í umhverfismálum.

Illugi ætti að vita að Ísland er aðili að EES-samningnum, að viðskiptakerfi ESB fyrir losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda er hluti þess samnings og að losun vegna álframleiðslu mun falla undir viðskiptakerfið frá og með 1. janúar 2013. Með öðrum orðum: Sértæk undanþága fyrir áliðnað á Íslandi jafngildir í raun kröfu um uppsögn EES-samningsins. Vill Illugi það?

Kosningar nálgast og stjórnmálamenn freistast til þess að skruma fyrir lýðnum, gegn betri vitund. Nýlegt dæmi um það er stuðningur

Framsóknarflokksins við hvalveiðar rúmri viku eftir að flokkurinn samþykkti að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Þingmenn þess flokks og formaður vita mæta vel að verði hvalveiðar stundaðar hér við land mun Evrópusambandið ekki fallast á samning um aðild Íslands.

Illugi reynir líkt og hvalveiðisinnarnir að tengja málstað sinn fullveldisrétti landsins en á fölskum forsendum því innan EES-samningsins hefur Ísland tryggt fullveldi sitt með því að deila því með öðrum þjóðum. Honum væri nær að gera kjósendum sínum grein fyrir andstöðu sinni við EES-samninginn – ef það er málið.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×