Búið er að aflýsa verkfalli gæðaeftirlitsmanna í dönskum sláturhúsum og hófu þeir vinnu aftur í morgun.
Um tíma leit út fyrir að verkfallið hefði það í för með sér að margar danskar fjölskyldur yrðu af hefðbundinni jólasteik sinni eins og við sögðum frá í fréttum í morgun. Því hefur nú verið bjargað fyrir horn.
Verkfallið skall á í gærdag þegar Matvælaeftirlit Danmerkur sagði upp nokkrum staðbundnum samningum við gæðaeftirlitsmennina. Verkfallið leystist þegar Matvælaeftirlitið ákvað að falla frá þessum áformum sínum.