KR og Snæfell eru bæði komin áfram í undanúrslit Iceland Express deildar karla í körfubolta en þau fá ekki vita um andstæðinga sína fyrr en að loknum tveimur oddaleikjum átta liða úrslitanna sem fram fara í Garðabæ og Keflavík í kvöld.
Það er ekki ákveðið fyrir fram hvaða lið mætast í undanúrslitunum heldur er reglan sú að besta liðið mætir alltaf því lakasta samkvæmt lokastöðunni í deildarkeppninni.
KR getur bara mætt Snæfelli eða Tindastól en Snæfell á möguleika á að mæta KR, Stjörnunni eða Njarðvík.
KR varð deildarmeistari en Snæfell endaði í 6. sæti. Liðin munu mætast í undanúrslitunum svo framarlega að Tindastóll vinnur ekki heimamenn í Keflavík. Vinni Stólarnir þá eru þeir lakasta liðið í undanúrslitunum og mæta því KR. Þá mæta Hólmarar sigurvegurunum úr leik Stjörnunnar og Njarðvíkur sem fram fer í Ásgarði.
Vinni Keflvíkingar Tindastól í Toyota-höllinni þá er öruggt að þeir mæta sigurvegurunum úr leik Stjörnunnar og Njarðvíkur. Keflavík getur aldrei mætt KR fyrr en í lokaúrslitunum enda eru þarna ferðinni tvö efstu liðin í deildarkeppninni.
Oddaleikir kvöldsins hefst báðir klukkan 19.15, Keflavík-Tindastóll fer fram í Toyota-höllinni í Keflavík en Stjarnan-Njarðvík fer fram í Ásgarði í Garðabæ.
Leikjum kvöldsins verða gerð ítarleg skil á Vísi í kvöld.