Met var sett í útflutningi á sjávarafurðum í Noregi í september. Alls voru fluttar út afurðir fyrir 5,7 milljarða norskra kr. eða rúmlega 100 milljarða króna í mánuðinum sem er aukning um 46% frá sama mánuði í fyrra.
Þetta er mesti útflutningur á sjávarafurðum í einum mánuði í sögu landsins.
Það sem einkum veldur þessum mikla útflutningi er aukin veiði á makríl og mikil eftirspurn eftir honum í Evrópu.
Þar að auki var mikil eftirspurn eftir norskum eldislaxi í löndum á borð við Frakkland, Rússland og Bandaríkin. Eldislaxinn á stærstan hlutann af útflutningum en verðmæti hans í september nam 2,9 milljörðum norskra króna.