Tveir hópar fjársterkra aðila berjast nú um kaupin á FIH bankanum í Danmörku. Bankinn er í eigu skilanefndar Kaupþings en veðsettur Seðlabanka Íslands.
Um er að ræða danska lífeyrissjóði sem hafa áhuga á að kaupa bankann. Annarsvegar er þar um að ræða sjóðina ATP og PFA og hinsvegar fimm minni lífeyrissjóði en í þeim hópi er einnig breski fjárfestingarsjóðurinn Triton.
Samkvæmt frétt í blaðinu Börsen er talið að söluverð FIH bankans muni liggja á bilinu 4 til 6 milljarðar danskra króna eða allt að 120 milljörðum króna.
Veð Seðlabankans nemur hinsvegar 500 milljónum evra eða um 75 milljörðum króna.