Danska þingið samþykkti í vikunni ný lög um viðbúnað banka og ríkis fari svo að stórir bankar lendi í alvarlegum fjárhagsvandræðum.
Nýtt fyrirkomulag tekur gildi 1. október í haust, þegar bráðabirgðafyrirkomulag vegna heimskreppunnar rennur úr gildi.
Samkvæmt nýju lögunum verður til frambúðar opið fyrir þann möguleika, að stefni bankar í þrot taki ríkið við rekstri þeirra og geri upp reikningana.
Að öðru leyti tekur gamla fyrirkomulagið gildi á ný, en samkvæmt því eiga bankarnir sjálfir að standa straum af almennu innstæðutryggingakerfi.
Fjárhæðin, sem tryggð er, verður þó hækkuð úr 375 þúsund dönskum krónum upp í 750 þúsund, en það samsvarar rúmum 15 milljónum íslenskra króna.
Lög um fulla ríkisábyrgð á innistæðum í dönskum bönkum voru sett 10. október 2008, þegar heimskreppan hafði skollið á af fullum þunga. Samkvæmt þeim lögum rennur ríkisábyrgðin út 30. september 2010.- gb