Þeir Vincent og Robert Tchenguiz segja að þeir séu báðir í fullri samvinnu við lögregluyfirvöld í Bretlandseyjum í tengslum við rannsóknina á málefnum Kaupþings.
Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu sem þeir bræður hafa hafa sent frá sér í framhaldi af handtöku þeirra í morgun og húsleitum sem voru framkvæmdar af hálfu efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar SFO og lögreglunnar í London.
Í tilkynningunni segir: „Við vorum handteknir fyrr í morgun og verið er að yfirheyra okkur vegna málefna sem varða tengsl okkar við Kaupþing banka.
Við sýnum báðir fulla samvinnu í rannsókninni og erum þess fullvissir að þegar rannsókninni lýkur munum við verða hreinsaðir af öllum ásökunum um misferli."
Yfirlýsingin er birt á vefsíðu Telegraph en þar er einnig að finna lýsingu á því sem gerðist og er að gerast á skrifstofu Vincent Tchenguiz í Mayfair í London. Heimildarmaður Telegraph segir að lögreglan hafi stormað inn á skrifstofurnar klukkan 6.30 í morgun. Þar séu lögreglumenn ennþá og hafa tjáð viðstöddum að þeir muni verða þar í allan dag og alla nótt eða þar til að húsleitarheimild þeirra rennur út.

