Skoðun

Virðum grundvallarreglur

Ögmundur Jónasson skrifar
Hjörtur Hjartarson, sá mæti maður, skrifar grein í Fréttablaðið og hvetur mig til að endurhugsa neikvæða afstöðu mína til tillögu sem fram hefur komið um að fulltrúarnir sem kjörnir voru á stjórnlagaþing verði skipaðir af Alþingi í nefnd sem sinni sama hlutverki og stjórnlagaþinginu hafði verið ætlað. Hæstiréttur hafi vissulega úrskurðað kosninguna ógilda en ekki á traustum forsendum. Og síðan sé á það að líta að Hæstiréttur sé í þessu úrskurðarhlutverki ekkert meira en nefnd sem megi ekki rugla saman við það hlutverk sem rétturinn hafi sem æðsti dómstóll landsins.

Nú er það svo, að ég er í hópi þeirra sem gagnrýnt hafa niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli og jafnframt sagt að helstu mistök löggjafans hafi verið að skýra ekki betur kæruferli ef fram kæmu kærur og þar með aðkomu Hæstaréttar að úrskurði um lögmæti kosningarinnar. Þessar forsendur voru um sumt óljósar en hlutverk Hæstaréttar er engu að síður afdráttarlaust. Hvað sem öðru líður þá er þetta Hæstiréttur og niðurstaðan er hans.

Á Íslandi er efnahagskreppa og þegar til lengri tíma er litið höfum við einnig búið við pólitíska kreppu sem birtist í vantrú á stjórnmálum. Til eru þeir sem telja að jaðri við stjórnarskrárkreppu og vísa ég þar í harða gagnrýni á ákvarðanir sem forseti Íslands hefur tekið í krafti stjórnarskrárákvæða um þjóðaratkvæði.

Ég er ekki í hópi þeirra sem gagnrýna ákvarðanir forsetans hvað þetta snertir, enda eindreginn fylgismaður þjóðaratkvæðagreiðslu og vil hafa sem flesta öryggisventla til að opna fyrir aðkomu almennings að ákvarðanatöku. En sumir eru annarrar skoðunar.

Í framhaldinu bið ég Hjört Hjartarson að endurhugsa sinn gang. Er ekki rétt að við vöndum okkur í hvívetna gagnvart öllu sem viðkemur grundvallarreglum varðandi stjórnarskrá landsins og þrískiptingu valdsins?

Ekki síst á þetta við þegar lagt er upp í þá vegferð að gera tilraun til að bæta stjórnskipanina - stjórnarskrá lýðveldisins. Það er niðurstaða mín eftir að hafa hugsað málið.

 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×