Dreamliner þota Boeing verksmiðjanna er loksins komin á loft í júmfrúrferð sína í áætlunarflugi þremur árum á eftir áætlun.
Dreamliner þotan, merkt japanska flugfélaginu All Nippon Airlines flýgur nú með fyrstu farþega sína á leiðinni frá Tókýó og til Hong Kong. Um er að ræða sérstaka ferð á vegum All Nippon en reglulegt áætlunarflug með Dreamliner þotunni hefst í næsta mánuði.
Seinkanir og tafir hafa einkennt framleiðsluna á Dreamliner frá upphafi en hún átti að komast í gagnið árið 2008. Hefur það kostað Boeing miklar fjárhæðir í afpöntunum á þessum þotum.
