Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir að evrusvæðið glími við „kerfisvanda" og þurfi að taka á málunum út frá því. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Barroso lét ummælin falla þegar hann var að ræða vandann á evrusvæðinu og þá ekki síst verðbólguhorfur. Verðbólga mælist nú þrjú prósent á ársgrundvelli. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu er tvö prósent.
Björgunarsjóður Evrópusambandsins, sem samþykkt hefur verið að verði stækkaður úr 440 milljörðum evra í 1.000 milljarða evra, hefur enn ekki endanlega verið fjármagnaður. Vonir standa til þess að sú vinna klárist á næstu mánuðum. Helstu áhyggjuefni fjárfesta eru áfram staða mála á Ítalíu, en þrátt fyrir samþykkt þings um mikinn niðurskurð, hefur álag á tíu ára ríkisskuldabréf landsins haldist yfir 7 prósent, sem er sögulegt hámark.
