Ullarskortur er yfirvofandi í heiminum vegna flóðanna í vestanverðri Ástralíu. Flóðin í Queensland ásamt flóðum og þurrkum á öðrum sauðfjárræktarsvæðum landsins gera það að verkum að yfirvöld hafa dregið verulega úr áætlunum um ullarframleiðsluna í ár.
Fjallað er um málið á Bloomberg fréttaveitunni. Þar segir að samhliða því að ullarframleiðslan hafi dregist saman hefur eftirspurn eftir ull farið vaxandi í Evrópu. Því séu allar líkur á ullarskorti á mörkuðum.
Sem dæmi um hve framleiðslan hefur dregist mikið saman í Ástralíu á undanförnum árum, vegna óhagstæðra veður- og náttúruskilyrða, má nefna að veturinn 2004 til 2005 framleiddu Ástralir 475 milljón kílóa af ull. Í vetur er hinsvegar áætlað að framleiðslan verði 335 milljón kíló.
Ástralía er stærsti framleiðandi heimsins á ull fyrir fataiðnaðinn. Andre Strydom forstjóri Cape Wools í Suður Afríku segir að reikna megi með því að Ástralir verði tvö til fjögur ár að ná framleiðslu sinni upp að nýju.
Samhliða yfirvofandi skorti á ull hefur verð hennar hækkað töluvert og nemur nú 10.17 dollurum eða um 1.180 kr. fyrir kílóið.