Skoðun

Tillögur stjórnlagaráðs

Róbert Spanó skrifar
Sá er þetta ritar lýsti þeirri skoðun sinni umbeðinn á vettvangi allsherjarnefndar Alþingis að í framhaldi af ákvörðun Hæstaréttar frá 25. janúar sl. um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings væru fyrirætlanir um að skipa þá í stjórnlagaráð, sem fremstir voru í kjörinu, byggðar á ótraustum grundvelli.

Sú leið var hins vegar farin og samþykkti Alþingi þingsályktun um skipan stjórnlagaráðs. Var ráðinu falið að semja tillögur að nýrri stjórnarskrá. Þær tillögur liggja nú fyrir og hafa verið afhentar forseta Alþingis. Enginn getur haldið því fram að ráðsmenn hafi ekki gert sitt allra besta til að sinna því mikilvæga verkefni sem ráðinu var falið.

Valdið til að breyta stjórnarskránni er í höndum Alþingis, sbr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, en ekki hjá stjórnlagaráði sem stendur að fyrirliggjandi tillögum. Hvað sem því líður verða þingmenn að gefa tillögum stjórnlagaráðs gaum og fjalla um þær með opnum huga. Aðdragandi málsins má ekki fyrirfram girða fyrir opinskáa og gagnrýna umræðu um tillögurnar á vettvangi þingsins og á meðal almennings.

Að sjálfsögðu er á hinn bóginn ekki hægt að ætlast til þess að á tillögurnar verði fallist umræðulaust. Málefnalegar umræður um grundvöll stjórnskipunarinnar eru bæði eðlilegar og nauðsynlegar í lýðræðisríki. Ástæða er til að nota það tilefni sem tillögur stjórnlagaráðs gefa til að efna til upplýstrar samræðu um íslenskt samfélag og hvernig stjórnarskrá við Íslendingar viljum búa við til næstu framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×