Eftir að mikið magn af olíu fannst undan ströndum Norður Noregs í Barentshafi hefur fasteignaverð á þessum slóðum rokið upp úr þakinu.
Norskir fjölmiðlar greina frá því að íbúðaverð á stöðum eins og Hammerfest í Finnmörku hafi næstum því tvöfaldast eftir að tilkynnt var að um milljarð tunna af olíu væri hægt að vinna á tveimur olíusvæðum í Barentshafi.
Tekið er dæmi af einbýlishúsi í Hammerfest sem selt var í vikunni á verði sem var 900.000 norskum krónum eða um 20 milljónum króna hærra en sett var á húsið fyrir mánuði síðan. Fasteignasali í Hammerfest segir að fasteignaverðið hækki nú dag frá degi í bænum.
Í umfjöllun Verdens Gang um málið segir ennfremur að viðvarandi fólksflótti frá Finnmörku heyri nú sögunni til. Ungt fólk sé í auknum mæli að flytja aftur til héraðsins og hófst sú þróun um svipað leiti og fjármálakreppan skall á árið 2008.
Aukin fæðingartíðni samfara þessari þróun hafi gert það að verkum að fólksfjöldinn í Finnmörku sé orðinn svipaður og hann var fyrir áratug síðan.
