Auðkýfingarnir James Cameron og Richard Branson hafa nú tekið höndum saman. Branson mun sjá nýstofnuðu fyrirtæki Camerons fyrir geimskutlum en sá síðarnefndi hyggst stunda námuvinnslu á fjarlægum smástirnum.
Það var í apríl á þessu ári sem Cameron tilkynnti um stofnun sprotafyrirtækisins Planetary Resources. Fjöldi nafntogaðra auðmanna styðja við bakið á verkefninu, þar á meðal eru stjórnendur og stofnendur tæknirisans Google.
Fyrirtækið hyggst stunda námugröft á smástirnum en slíkar hugmyndir hafa verið reifaðar af vísindamönnum í þó nokkurn tíma.
Það kemur því ekki á óvart að Cameron skuli leita til Virgin Galactic, geimferðaráætlunar Richard Bransons. Síðustu ár hefur breski milljarðamæringurinn unnið að þróun geimflauga sem flutt geta einstaklinga út í geim.
Í fréttatilkynningu frá Virgin Galactic kemur fram að fyrirtækið muni þróa ómannaða geimflaug sem kemur til með að flytja tækjabúnað að smástirnum.
