Skoðun

Ný barnalög í augsýn

Ögmundur Jónasson skrifar
Á Alþingi stendur fyrir dyrum lokaafgreiðsla á frumvarpi til barnalaga. Verði frumvarpið að lögum munu grunngildi Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins vera lögfest hér á landi, m.a. um rétt barna til að tjá sig í öllum málum sem þau varða, að teknu tilliti til aldurs og þroska.

Velferðarnefnd Alþingis hefur gert afgerandi breytingar á frumvarpinu frá því að ég lagði það fram. Í fyrsta lagi telur Velferðarnefnd að dómarar eigi að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá og hjá hvoru foreldri barn skuli hafa lögheimili. Þessi breyting kann að leiða til þess að fleiri forsjármál verði útkljáð fyrir dómstólum en áður. Ég hef talað fyrir annarri nálgun en hún er sú að leggja heldur áherslu á hina stórauknu og skyldubundnu sáttameðferð fyrir foreldra sem frumvarpið kveður á um. Í sáttameðferð fá foreldrar aðstoð við að tala saman og taka ákvarðanir sem báðir aðilar geta unað við. Dómsalur er hins vegar farvegur átaka, þar sem foreldrarnir reyna að finna hvor öðrum allt til foráttu til að styrkja sína stöðu í dómsmálinu. Slík átök geta reynst börnum erfið.

Breytingar til hins verraAlþingi hefur einnig lagst gegn tillögu minni um að taka út úr barnalögum heimild til aðfarargerðar, þ.e. að senda lögreglu inn á heimili barns til að sækja það og koma á umgengni. Tillaga mín var ekki sett fram í tómarúmi. Hún var sett fram vegna ábendinga frá mannréttindasamtökum og áhyggna sem viðraðar voru á vettvangi barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna í fyrirtöku á framkvæmd íslenskra stjórnvalda á Barnasáttmálanum. Það þurfa að vera veigamiklar ástæður fyrir því að réttlætanlegt sé að fjarlægja barn af heimili sínu með lögregluvaldi. Samkvæmt barnaverndarlögum er hægt að grípa til þess úrræðis ef barni er hætta búin á heimili sínu. Slík heimild þarf vissulega að vera fyrir hendi. En þegar kemur að ákvarðaðri umgengni er réttara að beina þvingunum gegn foreldrunum heldur en gegn barni.

Ný barnalög styrkja réttarstöðu barna og minna okkur á að samfélagið í heild sinni ber ábyrgð á velferð barna. Þær breytingar sem Alþingi hefur lagt til eru mjög til hins verra. En frumvarpið er að uppistöðu gott og verði það að lögum fagna ég því.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×