Nýjar tölur frá Alþjóða vinnumálastofnuninni sýna að fimm árum eftir að hin alþjóðlega fjármálakreppa hófst heldur atvinnulausum áfram að fjölga í heiminum.
Fjöldi atvinnulausra í heiminum mun fara yfir 200 milljónir manna á þessu ári. Atvinnulauir voru 197 milljónir talsins í fyrra og hafa ekki verið fleiri í sögunni. Þar með hafa 28 milljónir manna misst vinnuna á heimsvísu frá því að kreppan hófst.
Guy Ryder forstjóri Alþjóða vinnumálastofnunarinnar segir að ekkert annað sé í spilunum næstu árin en að atvinnuleysi aukist áfram í heiminum.
