Evrópusambandið er að koma á fót nýjum öryggisreglum fyrir starfsemi olíufélaga á hafi úti.
Norsku umhverfisverndarsamtökin Bellona telja að Norðmenn verði að taka þessar reglur upp að í gegnum EES-samninginn. Sé það rétt mat myndu reglurnar líka gilda fyrir Ísland.
Fjallað er um málið á vefsíðunni offshore. Þar segir að norska ríkisstjórnin og norski olíuiðnaðarinn hafni þessu og segja að Norðmenn ætli sjálfir að ráða sinni olíulöggjöf sama hvaða reglur Evrópusambandið setur í þeim efnum.
Fram kemur í umfjöllun offshore að þessar nýju öryggisreglur séu tilbúnar og að reiknað sé með að þær verði formlega samþykktar af ríkjum ESB á næstu mánuðum. Ákveðið var að koma þessum reglum á fót í kjölfar Deepwater Horizon mengunarslyssins á Mexíkóflóa árið 2010.
Reglurnar munu ekki ná til olíuleitar og vinnslu á heimskautasvæðinu þar sem ekkert af ríkjum ESB stundar olíuvinnslu á því svæði. Hinsvegar kemur fram á vefsíðunni að ESB muni reyna að þrýsta á að löndin sem skipa Heimsskautaráðið að taka upp þessar reglur.
ESB setur nýjar öryggisreglur um olíuleit og vinnslu á hafi úti
