Hæstiréttur Bandaríkjanna mun ekki stöðva samruna flugfélaganna American Airlines og US Airways þrátt fyrir ósk þess efnis af hálfu neytendasamtaka þar í landi. Telja samtökin að með samrunanum muni fargjöld hækka og þjónusta við farþega versna.
Hið sameinaða félag verður stærsta flugfélag í heimi þegar litið er til tekna, farþegafjölda og fleiri þátta, en áður var það sameinað flugfélag United Airlines og Continental Airlines sem var það stærsta.
Samruninn mun hefjast á morgun eftir að gengið hefur verið frá pappírum en til að byrja með munu farþegar fljúga undir nöfnum hvors félags fyrir sig.
