Danska orkufyrirtækið DONG og þýska fyrirtækið Siemens eru í forystu í vindmyllubransanum í Evrópu samkvæmt nýrri skýrslu frá The European Wind Energy Association (EWEA).
Framleiðsla á orku frá vindmyllum á sjó í Evrópu hefur tvöfaldast frá því í fyrra og nægir aukningin til að sjá milljónum heimila fyrir raforku.
DONG hefur sett upp flestar aflands vindmyllur í heimsálfunni en Siemens hefur framleitt mikinn meirihluta af vindmyllum í Evrópu og er stærsti birginn á markaðnum.
Endurnýjanlegir orkugjafar eru heldur betur að sækja í sig veðrið en sú þróun tengist helst 2020 markmiði Sameinuðu þjóðanna um að 20 prósent af allri orku í Evrópu verði framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum.
Eins og frægt er orðið hefur Landsvirkjun reist tvær vindmyllur í tilraunarskyni norðan við Búrfell og rannsakar nú hvort hægt sé að breyta íslenska rokinu í verðmæta auðlind.
Lokið var við uppsetningu vindmyllnanna í desember á síðasta ári og ætti áætluð raforkuframleiðsla þeirra að nægja til að sjá um 1.200 heimilum fyrir rafmagni til daglegra nota.
