Skoðun

Skattheimta og skipulagsvald til verktaka

Ögmundur Jónasson skrifar
Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er skorið niður um 750 milljónir til almennra framkvæmda í samgöngum. Jafnframt segir ríkisstjórnin að hún vilji ríkari þátttöku einkaaðila í samgönguverkefnum. Hvað þýðir þetta?

Innanríkisráðherra segir á forsíðu Fréttablaðsins á mánudag að viljinn standi til „að koma af stað aðgerðum og framkvæmdum sem eru ekki aðeins drifnar áfram af hinu opinbera“. Jafnframt segir ráðherra að forsenda einkaframkvæmdar sé að notendur eigi um aðra valkosti að velja en hinn einkarekna.

Ég leyfi mér í þessu samhengi að nefna nokkra þætti til umhugsunar.

Í fyrsta lagi þýðir þetta á mannamáli að færa á tilkostnað uppbyggingar samgöngukerfisins í auknum mæli á herðar notenda. Landsmenn koma að sjálfsögðu alltaf til með að borga beint eða óbeint fyrir vegi, hafnir og flugvelli. Spurningin er hvernig.

Í öðru lagi er hætt við því að boðað fyrirkomulag komi niður á landsbyggðinni þar sem mestra mannvirkja er þörf en jafnframt eru fæstir til að borga brúsann með notendagjöldum.

Í þriðja lagi er óbeint verið að færa skipulagsvald samgöngukerfisins til verktaka. Þeir eiga að verða drifkraftur en á þá leið er það beinlínis orðað. Það mun gerast þannig að einkaaðili býðst til að leggja Svínvetningabraut í Húnaþingi (þvert á vilja íbúa), eða hraðbraut yfir hálendið (þvert á vilja umhverfissinna), svo líkleg dæmi séu nefnd. Þegar þessu yrði andmælt má reikna með því svari að vegfarendum bjóðist aðrir valkostir en að aka um hinn nýja veg í eigu verktakans og greiða honum gjald fyrir.

Freistingin fyrir stjórnvöld yrði hin gamalkunna, að koma „einhverjum“ framkvæmdum af stað og þar með skapa atvinnu. Þetta yrði hins vegar engin atvinnusköpun til frambúðar og skulum við ekki gleyma því að nær allar framkvæmdir í samgöngukerfinu eru framkvæmdar á vegum verktaka að afloknum útboðum. Nú stendur hins vegar til að afhenda verktökunum eignarhaldið á mannvirkjunum til skamms eða langs tíma og beinan aðgang að pyngjum okkar.

Ég ítreka: Til stendur að skera niður til almennra framkvæmda en færa okkur undir yfirráð nýrra skattheimtumanna. Fyrir landsmenn verður þetta fyrirkomulag dýrara og umhverfinu varasamt.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×