Innlimun Krímskagans mun að vonum kosta Rússland skildinginn. Aðeins 10% af þeirri orku sem notuð er á Krímskaganum er framleidd þar. Af því rafmagni sem þar er notað kemur 80% frá öðrum stöðum Úkraínu, 90% af vatninu sem þar er notað og 65% af gasinu.
Jafnvel þó að Rússland sé í raun fært um að útvega þá orku sem til þarf til notkunar á Krímskaga er ekki fyrir hendi þeir innviðir sem til þarf að útvega hana. Að auki kemur 70% af opinberu fjármagni sem eytt er á Krímskaga beint frá Kiev.
Rússar hafa sagt að þeir ætli að leggja 565-680 milljarða króna til aðstoðar á Krímskaga. Þá er ekki innifalinn sá kostnaður sem hlýst af myntbreytingu í rússneska rúblu og samþættingu bankakerfisins við það rússneska.
Ein blóðtakan enn er stórleg fækkun ferðamanna til Krímskagans sem hafa mun enn ein neikvæð áhrifin á efnahaginn á Krímskaga. Í fyrra komu 6 milljónir ferðamanna til skagans og 70% þeirra komu frá Úkraínu og hætt er við því að áhugi þeirra til heimsókna þangað verði all lítill eftir innlimunina í Rússaland.
Þó að þessi Krímkrísa sé í raun pólitískt stríð milli Rússlands og hins vestræna heims þarf fólk á Krímskaga áfram að borða, borga reikninga og klæða börnin sín. Margir íbúar Krímskagans hafa eðlilega af þessu miklar áhyggjur og segja að ástandið sé ekkert nema efnahagsleg kollsteypa.

