Skoðun

Fram­leitt í (ó­lög­legri landræningjabyggð) Ísrael

Sema Erla Serdar og Yousef Ingi Tamimi skrifar

Í dag býr meira en hálf milljón Ísraelsmanna á palestínskum svæðum sem heyra undir hernumið land, en það er land sem Ísraelar hafa stolið af Palestínumönnum og ísraelskir landnemar hafa ólöglega sest að á. Flestir búa þeir á Vesturbakkanum, eða um 300.000 þeirra, sem dreifast á fleiri en hundrað landnemabyggðir. Flestar þessar landnemabyggðir eru byggðar á svæði þar sem Ísraelsmenn hafa beitt hervaldi og ofbeldi til þess að gera landið upptækt.



Í 49. grein Fjórða Genfarsáttmálans er skýrt tekið fram að bannað sé fyrir þegna hernámsveldis að setjast að á herteknum svæðum. Í 46. grein Haag sáttmálans er skýrt tekið fram að ólöglegt er að framkvæma eignaupptöku á landi og öðrum hlutum í einkaaeign á hernumdum svæðum. Í ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 465 er talað um að flutningur Ísraelsmanna á eigin þegnum til hernámsvæðanna sé alvarleg hrindrun í samningaviðræðum um frið og er krafist þess að Ísraelsmenn flytji til baka.



Þrátt fyrir það flytjast Ísraelar ekki einungis búferlum á stolin landsvæði, heldur starfa stærstu og helstu fyrirtæki Ísraelsmanna á hernumdum svæðum og njóta þannig ákveðinna forréttinda á kostnað Palestínumanna. Sem dæmi má nefna ísraelska fyrirtækið SodaStream, sem flestir Íslendingar ættu að þekkja, en frá árinu 1996 hefur SodaStream verið með stærstu verksmiðjuna sína í Mishor Adomim landnemabyggðinni á Vesturbakkanum.



SodaStream fékk ódýrt land í Mishor Adomim en fyrirtækið nýtur auk þess þeirra fríðinda að fá aðgang að vatni sem hefur verið stolið af Palestínumönnum, en vatn er ein mikilvægasta auðlindin á svæðinu og er af skornum skammti. Ísraelar hafa því ólöglega gert eignanám á vatnsauðlindum á hernumdum svæðum Palestínu, og njóta þess óhindrað á meðan vatn er í mörgum þorpum skammtað til Palestínumanna.

Einnig njóta fyrirtæki eins og SodaStream forréttinda í formi skattaafslátta og annarra fríðinda sem að sjálfsögðu væru ekki til staðar, væri fyrirtækið staðsett annars staðar en á stolnu landi. Þannig hvetja yfirvöld í Ísrael til flutnings þegna og fyrirtækja á ólöglega hernumin svæði.



Eyðilegging Ísraela á efnahag Palestínu hefur valdið því að margir Palestínumenn eru tilneyddir til að sjá fyrir sér með því að vinna í verksmiðjum Ísraela á Vesturbakkanum, en um 500 Palestínumenn vinna í verksmiðju SodaStream í Mishor Adomim. Atvinnuleysi á Vesturbakkanum er hátt og því sjá Ísraelarnir Palestínumenn sem ódýrt vinnuafl sem þeir komast upp með að borga mun minna en lágmarkslaun kveða á um og veita þeim ekki full atvinnuréttindi, á grundvelli þjóðernis þeirra. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að Palestínumennirnir vinna við mjög erfið og jafnvel hættuleg vinnuskilyrði, en mikið vantar upp á kröfur um umhverfis- og vinnuvernd séu uppfylltar.



Eins og það sé ekki nóg að brjóta alþjóðalög og virða að vettugi samþykktir Sameinuðu þjóðanna, og að hagnast á landráni og hernámi Ísraela með fríðindum og forréttindum, þá misnotar fyrirtækið SodaStream sér bága stöðu Palestínumanna á Vesturbakkanum og niðurlægir þá með því að neyða þá til þess að vinna fyrir þá sem eru ábyrgir fyrir þjáningum þeirra, á landinu sem var stolið frá þeim, þar sem nýttar eru náttúruauðlindir sem líka hefur verið stolið af þeim og toppurinn er svo að borga þeim minna en lágmarkslaun og hirða ekki um að sjá til þess að vinnuumhverfi þeirra sé öruggt.



Sniðganga er friðsamleg aðferð sem miðar bæði að því að tjá siðferðislega og pólitíska vanþóknun á viðvarandi aðgerðum einstaklinga eða stofnanna sem skaða aðra. Þessi aðferð er yfirleitt notuð þegar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar, en þann 9. júlí árið 2005 kom ákall frá Palestínumönnum sjálfum þar sem skorað var á alþjóðasamfélagið að hefja víðtæka sniðgöngu á Ísrael, þar til að réttindi Palestínumanna verða virt að fullu í samræmi við alþjóðalög.



Með því að versla SodaStream er verið að styðja landrán og aðskilnaðarstefnu Ísraelsmanna. Með því að selja SodaStream er verið að hagnast á landráni og aðskilnaðarstefnu Ísraela. Hreyfingin BDS Ísland – sniðganga fyrir Palestínu hefur því farið þess á leit við Byko ehf. og Elko ehf. að það hætti að selja SodaStream vörur. Þar sem engin viðbrögð hafa fengist frá fyrirtækjunum hefur hreyfingin sett af stað undirskriftasöfnun þar sem almenningur er hvattur til þess að senda stjórnendum fyrirtækjanna tölvupóst. Hægt er að skrifa undir og senda tölvupóst á síðunni www.snidgongumisrael.is



Byko ehf. og Elko ehf. ættu að setja fordæmi fyrir önnur íslensk fyrirtæki og láta af öllum viðskiptum við ísraelsk fyrirtæki og hætta að selja SodaStream vörur og hverfa þannig frá stuðningi við lögbrot og mannréttindabrot Ísraelsmanna. Þannig geta fyrirtækin tekið ábyrga afstöðu og fetað í fótspor fjölmargra fyrirtækja, stofnana og einstaklinga um allan heim sem hafa ákveðið að sýna mannréttindabaráttu Palestínumanna stuðning með því að sniðganga ísraelska framleiðslu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×