Hluthafafundur DV samþykki að fella burt ákvæði úr samþykktu félagsins sem áttu að tryggja dreifða eignaraðild, samkvæmt upplýsingum Vísis. Þannig er horfið frá þeirri reglu að enginn geti farið með nema 26 prósent af atkvæðum á aðalfundi.
Fundurinn samþykkti einnig að fækka stjórnarmönnum úr fimm í þrjá og skipa þeir Þorsteinn Guðnason, Jón Þorsteinn Gunnarsson og Eyþór Eðvarðsson stjórnina. Eyþór var áður varamaður í stjórn.
Lilja Skaftadóttir, sem áður var í stjórn félagsins og fyrrverandi aðaleigandi félagsins, var skipuð yfir útgáfunefnd blaðsins. Samkvæmt upplýsingum á vef Fjölmiðlanefndar á hún ekki lengur hlut í blaðinu.
Í þeim gögnum kemur fram að Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sé nú eigandi félags sem áður hélt utan um eignarhlut hennar í blaðinu. Hann var fundarstjóri á hluthafafundinum í dag.
Samkvæmt upplýsingum Vísis var einnig samþykkt að afnema þá reglu að viðskipti með hlutafé sem nemur fimm prósentum eða meira af heildarhlutum þurfi samþykki stjórnar.
Yfirtökuvarnir í samþykktum DV felldar út

Tengdar fréttir

Sigurður G. á 13 prósent í DV
Reynir Traustason enn á meðal stærstu hluthafa blaðsins.