Framtíð Arnþórs Ara Atlasonar er enn í óvissu. Eitt er þó ljóst að hann spilar ekki með Víkingi.
Heimir Gunnlaugsson, varaformaður knattspyrnudeildar Víkings, staðfesti við Vísi að Arnþór Ari hefði hafnað samningstilboði félagsins.
Arnþór staðfesti við Vísi í gær að hann hefði sest niður með FH-ingum. Heimildir íþróttadeildar herma enn fremur að KR hafi áhuga á leikmanninum.
Arnþór Ari sagði upp samningi sínum við Fram er liðið féll og hans þjálfari þar, Bjarni Guðjónsson, er líklega að taka við KR og hefur áhuga á að taka Arnþór Ara með sér samkvæmt heimildum íþróttadeildar.
Arnþór Ari skoraði þrjú mörk í 20 leikjum fyrir Fram í sumar og var meðal bestu leikmanna liðsins.
