„Það er mikill fengur fyrir teymi Terra Infirma að fá hann til liðs við okkur. Hann hefur gert nokkrar af mínum uppáhaldsmyndum og er mjög virtur í bransanum,“ segir kvikmyndaframleiðandinn Margrét Hrafnsdóttir.
Hún vinnur nú að kvikmyndinni Terra Infirma en nýlega bættist framleiðandinn Donald Ranvaud í framleiðsluteymið. Hann hefur áralanga reynslu í kvikmyndabransanum og hefur verið í hlutverki meðframleiðanda í myndum á borð við hinar Óskarstilnefndu City of God og The Constant Gardener.
Að sögn Margrétar er myndin fullfjármögnuð og undirbúningur fyrir tökur í fullum gangi. Þá segir hún stutt í að aðalleikari verði tilkynntur en staðfestir leikarar í myndinni eru meðal annars Connie Nielsen, Tom Berenger og íslenski leikarinn Gísli Örn Garðarsson. Aðspurð hvort fleiri íslenskir leikarar fái hlutverk í myndinni segist hún vona það.
„Vonandi verður óskað eftir starfskröftum fleiri Íslendinga í myndinni. Það verður þannig ef ég fæ að ráða enda mikið af stórkostlega hæfileikaríku fólki.“
Terra Infirma er spennutryllir en í henni ákveður náttúran að refsa mannkyninu fyrir illa meðferð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Vill fleiri íslenska leikara í Hollywood-mynd
