Vísir fjallaði í febrúar um eftirlitslaus börn sem hlupu um á ísnum við Jökulsárlón. Svo virðist sem það sé svo til daglegt brauð að erlendir ferðamenn komi sér eða börnum sínum í hættu á einum mest sótta ferðamannastað landsins.
„Þennan klukkutíma sem við vorum þarna fóru líklega fimmtán manns út á ísinn,“ sagði leiðsögumaðurinn Owen Hunt í samtali við Vísi í febrúar. Hann stöðvaði meðal annars kínverska fjölskyldu á leið út á ísinn með lítið barn.
„Fólk hefur spurt hvers vegna það sé ekki öryggisbátur hérna,“ sagði Owen við það tilefni. Heilbrigða skynsemi virðist víða ekki að finna. Engin leið væri að koma bát að renni fólk út í ískalt vatnið á milli jaka.
„Heimskingjar verða alltaf til“
Líkt og sjá má á myndbandinu að ofan fara mennirnir tveir sér nokkuð hægt enda erfitt að fóta sig á ísnum. Leiðsögumaðurinn Ingólfur Bruun segir í umræðu um myndbandið að ekki sé hægt að koma fullkomlega í veg fyrir að heimskingjar drepi sig.
„Eins og hefur komið oft fram hér á þessu svæði þá er einfaldlega ekki hægt að hafa vit fyrir öllum. Það er bara þannig. Heimskingjar verða alltaf til.“
Leiðsögumaðurinn Börkur Hrólfsson hefur þó aðra skoðun á uppátæki þeirra.
„Þau virðast skemmta sér vel. Ég sé ekkert að þessu. Sjálfsagt vita þau vel að vatnið er bæði kalt og djúpt.“