Virkjunin er við Palmafoss en áformað er að hún verði stækkuð og raforkuframleiðslan aukin úr 1,8 gígavattstundum á ári upp í 16,3 gígavattstundir. Það þýðir að mun stærri hluti af rennsli árinnar verður virkjaður. NRK segir óvenjulegt að ráðuneyti samþykki framkvæmdir sem undirstofnun hafi hafnað.

Ráðuneytið segir virkjunarleyfið meðal annars byggt á yfirlýsingum bæði Fylkismannsins og Umhverfisstofnunar Noregs um að skilyrði laxastofnsins í ánni muni ekki versna. Svæðið væri auk þess þegar raskað og minna rennsli á fossinum gæti auðveldað laxagöngur.
Ný orkulög, sem hin rauðgræna ríkisstjórn Stoltenbergs setti fyrir fjórum árum, um svokölluð græn orkuskírteini, hafa hleypt miklum krafti í virkjanaframkvæmdir í landinu. Þau niðurgreiða endurnýjanlega orkugjafa og samkvæmt úttekt þarlends háskóla í fyrra eru uppi áform um að virkja tuttugu teravattstundir til viðbótar í Noregi á næstu árum. Það er næstum tvöfalt meira vatnsafl en búið er virkja á Íslandi.