Breiðablik vann fjórða leikinn í röð í Pepsi-deild karla í fótbolta í gærkvöldi þegar liði lagði nýliða Leiknis, 2-0, í Breiðholtinu.
Þetta er fjórði leikurinn í röð sem liðið heldur hreinu, en Blikar fengu síðast á sig mark í deildinni gegn Keflavík í 1-1 jafntefli 17. maí.
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, setti félagsmet í gærkvöldi, en hann er nú búinn að halda markinu hreinu í 401 mínútu.
Eiginkona hans, Hildur Einarsdóttir, sló á létta strengi á Twitter í gærkvöldi eftir að eiginmaðurinn var búinn að halda hreinu enn eina ferðina og skrifaði:
Skorar enginn nema ég hjá @GulliGull1 þessa dagana !! #blix
— Hildur Einarsdóttir (@HildurEinarsd) June 7, 2015
Gunnleifur var kallaður aftur inn í landsliðið fyrir leikinn gegn Tékkum fyrir frammistöðu sína í Pepsi-deildinni til þessa, en hann hefur farið vel af stað eins og Blikarnir.
Þó hann sjái um að aðrir skori ekki innan vallar virðist honum ganga ágætlega heima fyrir.