„Ég veit nú ekki hvað þetta voru mörg spor. Fyrst var þetta heftað saman á fjórum stöðum og ætli það hafi ekki verið 4-5 spor til viðbótar,“ sagði Guðmann við Vísi í kvöld.
Læknir FH-liðsins er Haukur Heiðar Hauksson sem er að góðu kunnur sem söngvari hljómsveitarinnar Diktu. Hann sá um að gera að sárum Guðmanns.

Atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en hann skall saman við Kassim Doumbia, samherja sinn. Hann segist þó ekki hafa verið vankaður eftir höggið.
„Alls ekki. Ég hélt að þetta væri ekki neitt í fyrstu. Það tók svo einhverjar 5-6 mínútur að koma mér aftur inn á völlinn og það leið eins og eilífð,“ sagði Guðmann sem lék með myndarlegar umbúðir um hálsinn og hökuna það sem eftir lifði leiks.
Guðmann átti frábæran leik í vörn FH í kvöld og átti þátt í sigurmarki FH-inga í uppbótartíma. „Það var algjörlega frábært að vinna leikinn og gott fyrir allan hópinn að komast áfram. Þetta peppar okkur áfram.“
Og hann segir alveg ljóst að hann verður klár í næsta leik. „Það er hundrað prósent,“ sagði hann ákveðinn.
