Skoðun

Hvað laðar að mér skúrka?

Guðjón Sigurðsson skrifar
Fólk sem mögulega vill vel en með gerðum sínum vekur með mér falsvonir og hefur af mér og miklu fleirum stórar fjárfúlgur. Allt of margir eru fórnarlömb þessara skúrka. Skilningur minn er 100% hjá þeim sem láta glepjast. Hugarástand fólks með lífsógnandi sjúkdóma eða sem orðið hefur fyrir slysi er þannig að við erum auðveld skotmörk. Örvinglun og að grípa hvert hálmstrá er eðlilegur fylgifiskur svona ástands. En við skulum staldra við. Tala við aðra og fá að tala við þá sem hafa læknast.

Það er ekki sótt að forríku fólki, eignamiklu fólki eða fólki sem berst mikið á. Nei, það er mest spennandi að viðkomandi sé veikur, helst með enga batavon, með öðrum orðum dauðvona.

Alls konar töframeðul eru seld með fullyrðingum um hitt og þetta sem stenst enga skoðun svo ekki sé talað um forrit og vélbúnað sem gerir alla að nýslegnum túskildingi. Það nýjasta í því er fjarlækning, þarf bara hár af viðkomandi, jafnvel bara mynd af honum/henni og vélin sendir bylgjurnar til viðkomandi. Heilu stofurnar eru til með alls konar óhefðbundnum lækningum. Yfirvöld leyfðu þetta með lögum um græðara.

„Það er í sjálfu sér eðlilegt að þeir sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómi leiti allra ráða til að öðlast bata og séu þá fúsir til að reyna eitthvað sem er utan við hið viðtekna í heilbrigðisþjónustunni.“ Tekið af internetinu úr skýrslu heilbrigðisráðherra um græðara og starfsemi þeirra á Íslandi (lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005).

Hvar er eftirlitið? Hver verndar neytandann? Ef einhver þarfnast verndar er það þessi viðkvæmi hópur.

Stöldrum við

Nú má ekki skilja mig svo að ég sé á móti öllu sem ekki er vísindalega sannað. Ég hef reynt margt af þessu t.d.: Kírópraktor, grasalækna, Bowen-tækni, höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, heilun, miðla, slökun, nudd alls konar, nálastungur, hómópata (smáskammtalækningar), vítamín, fyrirbænir og núna síðast einhvers lags bylgjumeðferð ásamt miklu fleiru.

Ekkert af þessu hefur gert mér vont nema það hefur ekki aukið mikið á veraldlegan auð minn enda flest ekki gefins í svona meðferðum. Flest hefur veitt mér góða slökun og vellíðan á meðan á því stendur og í stuttan tíma á eftir.

Það sem ég get mælt með, til vellíðunar og hressingar, en ekki til lækninga, er: Kírópraktor, höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, heilun, slökun, nudd, nálastungur, grasalæknar í einstöku tilvikum og hómópatar sem ekki nota „geislavélar“ til að breyta sykurpillum í meðul. Aðrir hafa lofað mér meiru en staðið var við.

Hvað er þá vandamálið? Langflestir af þessum töframönnum hafa lofað svo miklu meiru en þeir geta staðið við. Jafnvel lækningu á MND og krabbameinum alls konar svo ekki sé talað um annað „smotterí“. Þarna eru allt of margir að taka stórfé fyrir eitthvað sem aldrei verður annað en falsvonir hjá þeim veiku. Að einhverjir séu að vekja falsvonir og ræna dauðvona fólk er í mínum huga glæpur sem verður einhvern veginn að koma í veg fyrir. Lægra leggst fólk ekki að mínu mati.

Ég hvet alla, sem fá tilboð sem eru of góð til að standast, til að staldra við, aðeins að kanna hvað er á bak við gylliboðin. Við erum flest viti borin og þó okkur séu gerð tilboð á tímum örvæntingar þá er samt rétt að staldra við. Við berum ábyrgð á eigin heilsu og höfum svo margt betra við tímann að gera en að láta aðra hafa okkur að fífli. Við getum gert það sjálf og notið lífsins um leið.

Lifið heil!




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×