Eins og ítrekað hefur verið fjallað um féll tenniskonan Maria Sharapova á lyfjaprófi í janúar en hún hafði tekið meldóníum, lyf sem var sett á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins, WADA, um áramótin.
Sharapova viðurkenndi á blaðamannafundi í vikunni að hún hefði tekið lyfið í áratug af heilsufarsástæðum.
Lyfið er framleitt í Lettlandi og nánast eingöngu selt í Austur-Evrópu. Það er ekki leyfilegt í Bandaríkjunum, þar sem Sharapova býr.
Sjá einnig: Hvað er meldóníum?
„Við munum sjá mörg dauðsföll á íþróttavellinum,“ sagði Ivars Calvins sem fann upp á lyfinu í samtali við BBC. „Íþróttamenn sem nota lyfið munu ekki geta gert það í framtíðinni og njóta því ekki jafn mikillar verndar.“
Sharapova á yfir höfði sér allt að fjögurra ára bann en sannað þykir að lyfið getur haft þau áhrif að það eykur þol íþróttamanna og gerir það kleift að þeir jafni sig fyrr eftir mikla áreynslu.

