Microsoft tilkynnti í dag að það myndi kaupa samfélagmiðilinn LinkedIn fyrir 26 milljarða dollara.
Hlutabréf LinkedIn, sem hafa verið í frjálsu falli undanfarna mánuði, ruku upp eftir að tilkynnt var um kaupin og hafa þau sem af er degi hækkað um 47 prósent.
Búist er við að gengið verði endanlega frá kaupunum fyrir lok þessa árs. Stjórnir beggja fyrirtækja samþykktu kaupin einróma en hluthafar og eftirlitsaðilar þurfa einnig að samþykkja kaupin.
Jeff Weiner mun áfram verða forstjóri LinkedIn, í tilkynningu til starfsmanna sinna sagði hann að ekki mætti búast við miklum breytingum hjá LinkedIn eftir samrunann. Talið er að með kaupunum vilji Microsoft herja frekar á samfélagsmiðlamarkaðinn.

