Valsmenn biðu afhroð gegn danska liðinu Bröndby í seinni leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í dag. Leikar fóru 6-0 en Bröndby vann einvígið, 10-1 samanlagt.
Valsmenn áttu nánast enga möguleika á að komast áfram eftir 1-4 tap í fyrri leiknum en tefldu samt fram sterku liði í leiknum í dag. Það dugði þó engan veginn til.
Kamil Wilczek kom Bröndby yfir strax á 5. mínútu og 10 mínútum síðar bætti Andrew Hjulsager öðru marki við.
Finninn Teemu Pukki sá svo til þess að staðan var 3-0 í hálfleik þegar hann skoraði á 26. mínútu.
Pukki bætti sínu öðru marki við á 57. mínútu og það var svo varamaðurinn Daniel Stückler sem gerði tvö síðustu mörkin og innsiglaði 6-0 sigur Bröndby.
