Ræðumenn þurftu að þola það þegar flokksbræður þeirra og systur púuðu í hvert sinn sem Hillary Clinton var nefnd á nafn.

Bernie Sanders var á meðal þeirra fyrstu sem hélt ræðu á þinginu og þar hvatti hann kjörmenn flokksins að styðja Hillary Clinton sem forsetaefni flokksins. Hann sagði það að koma í veg fyrir að Donald Trump komist til valda vera mikilvægara en baráttu innan flokksins. Fyrir landsþingið hafði Sanders sent út tölvupóst til þeirra kjörmanna sem studdu hann í tilraun til þess að koma í veg fyrir sundrung.
„Trúverðugleiki okkar sem sameinaður flokkur mun hljóta hnekki ef gestir púa eða snúa baki við forystu flokksins,“ skrifaði hann í tölvupóstinum. „Það er það sem fjölmiðlar vilja sjá. Það er það sem Donald Trump vill sjá.“

Stuðningsmenn Sanders eru æfir eftir að tölvupóstur sem var lekið á netinu síðastliðinn föstudag sem sýndu að hátt settir einstaklingar innan flokksins hafi reynt að skemma fyrir kosningabaráttu Sanders. Forystumenn flokksins sendu tölvupóst á alla demókrata í gær þar sem þeir báðu Sanders og stuðningsmenn hans innilegrar afsökunar á þeim ummælum sem láku í fyrrnefndum pósti.
Í kjölfarið sagði Debbie Wasserman Schultz, sem bar ábyrgð á umræddum tölvupósti, upp stöðu sinni sem formaður landsnefndar demókrataflokksins. Hún mun hætta að landsþingi loknu.
Búist er við því að Hillary Clinton taki við útnefningu flokks síns sem forsetaefni demókrata við lok þingsins.