Þetta kemur fram í Ferðamannapúls Isavia, Ferðamálastofu og Gallup fyrir mánuðina júní og júlí. Fær Ísland meðaleinkunina 85 á skalanum 0-100 sem er svipuð einkunn og mælst hefur framan af ári.
Rússneskir ferðamenn gefa Íslandi einkunina 90,8 í meðaleinkunn en Japanir eru hins vegar minnst ánægðir og gefa Íslandi að meðaltali 74 í einkunn.

Ferðamannapúlsinn mælir heildaránægju og heildarupplifun á heimsókn ferðamanna til Íslands og er samstarfsverkefni Gallup, Isavia og Ferðamálastofu. Mælingar hófust í mars á þessu ári og byggja þær á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Púlsinn byggir á fimm spurningum sem allar vigta jafnt og mæla heildaránægju, gestrisni, hversu líklegir ferðamenn séu til að mæla með Íslandi sem áfangastað, uppfyllingu væntinga og hvort ferðin hafi verið peninganna virði.

Samkvæmt púlsinum sækja fleiri ferðamenn landsbyggðina heim yfir sumartímann en að vetri til. Hlutfall þeirra ferðamanna sem sækir höfuðborgina heim helst stöðugt í kringum 95 prósent en aðrir landshlutar fá mun hærra hlutfall ferðamanna að sumri til. Mestur reyndist munurinn á Norðurlandi og Vestfjörðum þar sem ríflega þrefalt fleiri heimsækja þá landshluta að sumri en að vetri.
Að jafnaði segjast ríflega tveir þriðjuhlutar erlendra ferðamanna nýta hótelgistingu í dvöl sinni yfir vetrarmánuðina en samsvarandi hlutfall fer hins vegar niður í 50 prósent yfir sumartímann. Því lækkar hlutfall erlendra ferðamanna sem nýtir sér hótelgistingu um ríflega 16 prósent milli vetrar og sumars. Á sama tíma eykst hlutfall þeirra sem nýtir sér gistingu í heimahúsum (s.s. Airbnb, heimilisskipti og fleira) töluvert og nær upp í 29 prósent, en alls segjast tæplega 22 prósent hafa leigt sér íbúð í gegnum Airbnb.