
„Ég er múslimi og, rasistum til mikillar undrunar, hvítur. Móðir mín er evrópsk og faðir minn arabi. Ég er reiður. Reiður vegna lyga Wilders og hræðsluáróðurs,“ sagði Al-Hussein.
Þingkosningar verða í Hollandi á næsta ári og mælist Frelsisflokkur Wilders með mest fylgi, átján prósent samanborið við tíu prósent árið 2012. Wilders hefur í kosningabaráttunni lýst því yfir að hann vilji banna Kóraninn og moskur í Hollandi.
„Stefnuskrá Frelsisflokksins er viðbjóðsleg,“ sagði Al-Hussein og líkti Wilders við bandaríska forsetaframbjóðandann Donald Trump, ungverska forsætisráðherrann Viktor Orban, Marine Le Pen, formann frönsku Þjóðfylkingarinnar, og Nigel Farage, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokks Bretlands. Þá sagði hann aðferðafræði fyrrgreindra stjórnmálamanna í takt við þær aðferðir sem hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki nota.

Hálft ár er nú í þingkosningar í Hollandi, þær fara fram þann 15. mars. Barist er um öll 150 þingsæti fulltrúadeildar þingsins. Ef niðurstöður verða í takt við skoðanakannanir mun flokkur Wilders fá 31 þingsæti. Það væri rúmlega tvöföldun frá því síðast var kosið, árið 2012, en þá fékk Frelsisflokkurinn fimmtán þingsæti. Stærsti flokkurinn, Frelsis- og lýðræðisflokkur forsætisráðherrans Marks Rutte, myndi hins vegar bíða afhroð og tapa sautján þingsætum. Fara úr 41 sæti niður í 24.
Á sunnudag tók Rutte í sama streng og al-Hussein gerði í gær. Sagði hann Wilders ógn við hollenskt samfélag og útilokaði ríkisstjórnarsamstarf flokkanna tveggja. „Wilders er minn helsti óvinur í stjórnmálum. Hann elur á ótta en axlar enga ábyrgð á því að takast á við vandamálin sem hann skapar með því,“ sagði Rutte.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.