Skoðun

Ekki rústa öllu á leiðinni út

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Það eru skrýtnir tímar í stjórnmálum í dag. Ríkisstjórnin er að hrökklast frá völdum eftir að hafa látið undan háværum kröfum almennings og gengið verður til kosninga fyrr en fyrirhugað var. Ráðherrar þráuðust lengi við að upplýsa kjósendur um hvenær þeir fengju að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa, en loksins létu þeir undan þeirri eðlilegu kröfu. Á leiðinni út úr ráðuneytunum virðast ráðherrarnir hins vegar staðráðnir í að koma sem mestu af umdeildum málum í gegn.

Það er til að mynda með ólíkindum að Illugi Gunnarsson, ráðherra mennta- og menningarmála, skuli ætla sér að gera grundvallarbreytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna á þeim örfáu þingdögum sem eftir eru. Breytingar sem Háskóli Íslands segir að geti falið í sér mismunun til náms, geti staðið doktorsnemum fyrir þrifum og jafnvel komið mismunandi niður á kynjunum. Hvort það síðasttalda á við vitum við ekki, þar sem ráðherrann telur enga þörf á að kynjagreina frumvarpið, frekar en nokkuð annað reyndar. Og þá á eftir að svara hvers vegna mismuna á fólki eftir efnahag varðandi endurgreiðslur.

Til stendur að umbreyta námslánafyrirkomulaginu og til þess ætlar ráðherrann þingmönnum örfáa daga. Það er í besta falli óvirðing fyrir Alþingi og þeim vönduðu vinnubrögðum sem þar eiga að ríkja.

Þá ákvað ríkisstjórnin að skella fram eins og einu frumvarpi um verðtrygginguna, svona af því að brátt þyrftu ráðherrar að biðja kjósendur um að kjósa sig aftur og þeir höfðu víst lofað einhverju slíku. Skemmst er frá því að segja að frumvarpið er furðulegur bastarður þar sem öllu ægir saman; sumt er bannað, nema fyrir næstum alla og annað er illa séð, nema fyrir suma. Seðlabankinn er að minnsta kosti hissa á frumvarpinu og segir tilganginn með því óljósan.

Ef húsráðendur vilja mann út úr partýi, er ekki góð hugmynd að sparka allt niður á leiðinni út. Hið eðlilega er að þakka bara pent fyrir sig og fara. Það mætti ríkisstjórnin gera.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×