Bandaríski forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton vill fá núverandi varaforseta, Joe Biden, til að taka við embætti utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni, verði hún kjörin forseti í kosningunum sem fram fara 8. nóvember.
Politico greinir frá þessu og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan kosningaliðs Clinton.
Segja þeir að Clinton og hennar fólk verji miklum tíma í að finna leiðir til að sannfæra Biden um að taka verkið að sér.
Í frétt Politico kemur fram að hvorki Clinton né samstarfsmenn hennar hafi nefnt hugmyndina við Biden sjálfan, heldur leggi mikið púður í að hanna uppleggið hvernig skuli nálgast Biden með hugmyndina.
Biden var formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings áður en hann tók við embætti varaforseta árið 2009.

