Stjórnvöld í Gambíu hafa ákveðið að segja skilið við Alþjóðasakamáladómstólinn í Haag. Saka þau dómstólinn um að draga einungis Afríkumenn fyrir réttinn.
Sheriff Bojangi, upplýsingamálaráðherra Gambíu, greindi frá þessu í ávarpi sem sýnt var í ríkisfjölmiðli landsins í gær.
Tilkynning gambískra stjórnvalda kemur einungis nokkrum dögum eftir að stjórnvöld í Suður-Afríku greindu frá því að þau hugðust yfirgefa dómstólinn.
Stjórnvöld í Búrúndí hafa einnig sagt að landið muni yfirgefa dómstólinn. Þá segjast stjórnvöld í Kenía einnig vera að íhuga slíkt hið sama.
