Árásir Trump á fjölmiðla hafa aukist verulega á undanförnum vikum, samhliða slæmu gengi hans í skoðanakönnunum. Mikil umræða er uppi um að Trump ætli sér að stofna eigin sjónvarpsstöð.
Í útsendingunni má sjá þau Boris Epshteyn, Cliff Sims og Kellyanne Conway ræða kosningarnar og hin ýmsu málefni.
Útsendingin er sett upp eins og fréttaþáttur, en tilgangur hennar samkvæmt Epshteyn er að koma skilaboðum framboðsins fram hjá hefðbundnum fjölmiðlum. Donald Trump hefur ítrekað sagt að fjölmiðlar séu á móti sér og Epshteyn slær á svipaða strengi í samtali við Wired.
„Við vitum öll að það er mikil vinstri slagsíða á fjölmiðlum. Með þessu viljum við koma skilaboðum okkar beint til kjósenda.“
Vert er að benda á að Trump hefur einnig ráðist hart gegn Fox News.
Vangaveltur hafa verið uppi um að Donald Trump ætli sér að koma á fót sjónvarpsstöð ef hann tapi kosningunum í næsta mánuði. Fregnir hafa borist af því að sonur hans hafi átt í viðræðum við fjárfesta en Trump sjálfur neitar fyrir þetta. Brad Parscale, yfirmaður stafræns efnis framboðs Trump, segir útsendingarnar vera nokkurs konar angi af auglýsingum framboðsins og samfélagsmiðlum þess.
Kosningastjóri Trump, Steve Bannon, fyrrum ritstjóri Breitbart, var þó ekki jafn ákveðinn í svörum sínum til CNN Money.
Hann svaraði spurningu um mögulegt Trump TV með bros á vör: „Trump er frumkvöðull.“