Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki rætt við bandarísku alríkislögregluna, FBI, um fullyrðingar sínar þess efnis að forveri hans í starfi, Barack Obama, hefði látið hlera síma hans.
Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en síðastliðinn laugardag sakaði Trump Obama um að hafa fyrirskipað hlerarnir á Trump-turninum í New York á meðan kosningabaráttan stóð sem hæst í fyrra. Trump hefur ekki fært nein sönnunargögn máli sínu til stuðnings.
Stjórnandi FBI, Jame Comey, er sagður hafa hafnað þessari ásökun Trump.
Talsmaður Hvíta hússins, Sean Spicer, sagði í dag að Donald Trump hafi ekki rætt málið við Comey.
Spicer sagði að það væri skynsamlegast í stöðunni að láta bandaríska þingið rannsaka þessar ásakanir.
Comey hefur farið fram á að bandaríska dómsmálaráðuneytið hreki þessa fullyrðingu forsetans.

