Skoðun

Metnaður í mikilvægum greinum

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir skrifar

Það var aðdáunarvert að fylgjast með ungum metnaðarfullum nemendum keppa nýverið á Íslandsmótinu í iðn- og verkgreinum. Metnaðurinn leyndi sér ekki og ljóst að framtíðin er björt fyrir íslenskan iðnað hvað varðar hæfileika nemenda í iðn-, tækni- og verkgreinum í dag. Eða hvað? Veruleikinn í íslensku atvinnulífi er því miður sá að mörg fyrirtæki og margar greinar skortir fagmenntað fólk og sú staðreynd kemur niður á afkastagetu þeirra.



Það er ekki lengur framtíðarógn heldur staðreynd að nýliðun er ábótavant og fagmenn standa frammi fyrir miklum vanda. Íslenskt atvinnulíf hefur vissulega aðgang að öflugum nemendum sem ljúka metnaðarfullu námi, en betur má ef duga skal. Hlutfall þeirra sem velja iðn-, tækni- og verknám að loknu grunnskólanámi verður að hækka og megináhersla okkar sem vinnum að menntamálum verður á næstu misserum að stuðla að því að svo verði.



Hindranir

Í þessari vinnu eru þó nokkrar hindranir sem mikilvægt er að menntakerfið í samstarfi við atvinnulífið skoði saman og þrói með þeim hætti að námið sé aðgengilegt þeim sem hafa áhuga á að mennta sig í þessum greinum. Í því sambandi þarf að horfa jafnt til ímyndarmála og kerfisins sem menntuninni eru búnar. Hvað ímynd varðar þá virðist sú mynd sem margir hafa af tilteknum iðngreinum lítið eiga skylt við raunveruleikann t.d. hvað varðar snyrtimennsku, vinnuaðstöðu, verkefni og tekjur. Eins hafa fyrirframgefnar hugmyndir varðandi hlutverk kynjanna verið áberandi og hlutur kvenna í iðn-, tækni- og verknámi hefur ekki verið jafn hár og eðlilegt mætti teljast í samfélagi sem komið er jafn langt í jafnréttisumræðunni og raun ber vitni.



Hvað varðar kerfislægan vanda má m.a. benda á það óöryggi og flækjustig sem fylgt getur því að nemendur útvegi sér samning í þeirri grein sem sótt er um nám í, ferlið verður flóknara og þegar við bætist námstími sem er, eftir nýjustu breytingar, orðinn lengri en hefðbundið bóknám til stúdentsprófs vinnur það ekki með greinunum. Við þetta bætist svo að enn eru leiðir til framhaldsnáms óskýrar, margar iðngreinar eru skilgreindar sem fámennar iðngreinar sem veldur því að erfitt er að halda uppi hefðbundnu námi og mikilvægt er að þróa leið sem gerir nemendum á landsbyggðinni kleift að ljúka námi í iðngreinum í sinni heimabyggð, enda eru menntamál líka byggðamál.



Framtíðin er björt, við eigum einstaklega hæfileikaríkt ungt fólk sem hefur ákveðið að leggja fyrir sig nám í iðn-, verk- og tæknigreinum en við þurfum að auka veg þessara greina hvað fjölda nemenda varðar og þá sér í lagi að horfa til þess að auka hlut ungra kvenna.

 



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×