Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa varað arftaka hans í starfi, Donald Trump, við að ráða Michael Flynn í embætti þjóðaröryggisráðgjafa. Flynn sagði af sér embætti eftir aðeins 24 daga í starfi eftir að upp komst um samskipti hans við Rússa áður en Trump tók við embætti.
Fréttastofa NBC greinir frá þessu og hefur eftir þremur starfsmönnum í ríkisstjórn Obama. Forsetinn fyrrverandi er sagður hafa varað Trump við Flynn þegar þeir hittust í Hvíta húsinu, aðeins tveimur dögum eftir að Trump sigraði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.
Flynn starfaði fyrir ríkisstjórn Obama en var rekinn árið 2014 vegna óstjórnar er hann stýrði starfi einnar af leyniþjónustustofnunum Bandaríkjanna. Obama er sagður hafa látið Trump vita að Flynn væri ekki hæfur til þess að gegna embætti þjóðaröryggisráðgjafa.
Hafði hann verið ráðgjafi Trump í þjóðaröryggismálum í kosningabaráttunni og hundsaði Trump aðvörun Obama og réð Flynn til starfa skömmu eftir að hann tók við embætti forseta í janúar síðastliðnum. Hann entist þó ekki lengi í starfi og lét hann af embætti eftir að upp komst að hann hafði sagt ósatt um samskipti sín við rússneskan sendiherra.
