Skoðun

Bjarni og stolnu fjaðrirnar

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Það vakti von í brjósti margra þegar fregnir bárust af því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra væri að boða jafnrétti í hinum stóru útlöndum. Ráðherra mætti á fundi í New York, gott ef hann skreytti ekki köku á viðburði HeForShe. Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, í þessari kökuskreytingu felst staðfesta mín um að berjast fyrir kynjajafnrétti í hvívetna.

Sjálfur sat ég fund kvennanefndar SÞ í New York vikuna á eftir Bjarna og Íslendingarnir voru nokkuð stoltir af sínum manni. Hann hafði jú brotið niður staðalmyndir með því að skreyta sjálfur köku, það hafði vakið athygli og fullvissað þjóðir heims um að ráðamenn á Íslandi væru staðfastir í baráttu sinni fyrir kynjajafnrétti.

Klístrað kremið hafði þó varla þornað á kökunni þegar úrskurður kærunefndar jafnréttismála barst um það að Bjarni hefði brotið jafnréttislög þegar hann skipaði karl í stöðu skrifstofustjóra fram yfir konu. Raunverulegur boðberi jafnréttis hefði tekið slíkum úrskurði af auðmýkt. Allir geta jú gert mistök, en það segir mikið um karakterinn hvernig fólk tekur á þeim. Og það segir mikið um það hversu mikið maður meinar það sem maður boðar, hvernig maður tekur á því að hafa brotið gegn eigin boðskap.

Og skemmst er frá því að segja að Bjarni féll algjörlega á því prófi. Í stað auðmýktar og vilja til bóta, birtist hroki valdsmannsins. Þetta skipti allt saman ósköp litlu máli í huga Bjarna, í stað sjálfsgagnrýni gagnrýndi hann forvera sína. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.

Skipan skrifstofustjórans veltir upp ýmsum spurningum. Það vekur athygli að stjórnunarreynsla er til einskis metin, sem er furðulegt við ráðningu í stjórnunarstöðu. Svo virðist sem konur geti ekki einu sinni notið þess að hafa orðið sér úti um reynslu; hún er að engu metin og karlarnir ráða karlana.

Ég hvet Bjarna Benediktsson til að hlusta á ræðuna sína frá New York, hún er til á netinu. Það er til lítils að skreyta köku með stolnum jafnréttisfjöðrum á alþjóðlegum viðburðum, en brjóta jafnréttislög heima fyrir eins og ekkert sé.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×