Þetta sagði forsetinn í viðtali við NBC News nú í dag.
Bæði dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og aðstoðardómsmálaráðherra, Jeff Sessions og Rod Rosenstein, sendu í vikunni bréf til Trump þar sem þeir lögðu til að Comey yrði rekinn. Í þeim bréfum var sú ástæða gefin að Comey hefði ekki tekið á máli tölvupósta Hillary Clinton með réttum hætti.
Talsmenn Trump hafa í gær og í fyrradag ítrekað haldið því fram í mörgum fjölmiðlum að sú ástæða væri rétt. Þeirra á meðal er Mike Pence, varaforseti Trump. Hann sagði fjölmiðlum í gær að ákvörðun forsetans hefði byggt á tillögum Sessions og Rosenstein.
Trump sjálfur sagði í uppsagnarbréfi Comey að hann væri að fylgja tillögum Sessions og Rosenstein en nú virðist hafa gefa lítið fyrir þær tillögur og segir brottreksturinn alltaf hafa staðið til.
„Óháð tillögunum, þá ætlaði ég mér að reka Comey,“ segir Trump í viðtalinu.
Talskona Trump sagði í gærkvöldi að forsetinn hefði verið að íhuga að reka Comey allt frá því að hann varð forseti Bandaríkjanna og að hann hefði framið „grimmdarverk“ í starfi sínu. Á undanförnum mánuðum hefur forsetinn sjálfur og talsmenn hans hins vegar ítrekað lýst yfir stuðningi við Comey í starfi.
Sjá einnig: Forsetinn sagður hafa verið reiður Comey
Starfsmenn Hvíta hússins hafa einnig haldið því fram að Comey hafi misst stuðning starfsmanna FBI. Starfandi yfirmaður FBI, Andrew McGabe, sagði hins vegar nefnd öldungaþingmanna um njósnamál í dag að sú væri ekki raunin. Comey nyti mikils stuðnings innan Alríkislögreglunnar.
Jeff Sessions, sem sagði sig frá öllum rannsóknum vegna afskipta Rússa af kosningunum eftir að hann sagði ósatt um fundi sína og sendiherra Rússlands, leiðir nú leitina að nýjum yfirmanni Alríkislögreglunnar.