Skoðun

Róttækni er þörf

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Enn einn ganginn hefur ríkisstjórnin sýnt það í verki að hún hugsar fyrst og fremst um hag efsta lags samfélagsins. Boðaðar húsnæðisaðgerðir hennar nýtast ekki þeim sem mest þurfa á þeim að halda, heldur beinast að þeim sem hafa það betra. Enn einn ganginn hefur velferðarráðherra sýnt það að umgengni hans við tölur er uppfyndingasöm, svo ekki sé meira sagt. Á sínum stutta ferli sem ráðherra hefur hann farið með fleipur um útgjöld til Landspítalans og bætt kjör lífeyrisþega. Og nú veifar Þorsteinn Víglundsson meðaltalinu til að sýna fram á að aðgerðirnar séu nú ekki einungis fyrir þau sem best hafa það, heldur líka þau sem næstbest hafa það.

Sannast sagna nenni ég ekki að tala um meðaltal eða miðgildi launa, ég nenni ekki að taka þátt í teygjum velferðarráðherra. Það er einfaldlega fullkomlega ljóst að í þessu, eins og öðru, hugsar ríkisstjórnin ekki um þau sem verst hafa það.

Hvar eru áætlanir hennar um hækkun lægstu launa? Um hækkun bóta svo þær verði sómasamlegar? Um umfangsmiklar endurbætur á samfélaginu til að útrýma fátækt? Til að bæta kjör þeirra verst settu? Til að við höfum öll nóg að bíta og brenna, öruggt húsnæði, getum séð fyrir okkur og börnum okkar og leyft okkur eitthvað aukreitis? Hvar er baráttan gegn ofurlaunum og brjálæðislegum bónusum? Hvar er áherslan á opinbert heilbrigðiskerfi sem gagnast öllum? Á samneysluna? Hvar eru breytingarnar á skattkerfinu til jöfnuðar?

Ég dáist að því fólki sem getur lifað á lægstu launum, hvað þá þeim sem geta lifað á bótum. Því, ágæti lesandi, þetta er tiltölulega einfalt mál: Það þarf að bæta kjör þeirra verst settu, hækka lágmarkslaun, hækka bætur. Og það þarf að gera það að forgangsmáli.

Við þurfum nýja ríkisstjórn. Við þurfum sósíalíska hugsun um samfélag, ekki hóp einstaklinga. Við þurfum samtakamátt, samhygð, samkennd. Það er komið nóg af ég-pólitíkinni, þó hún sé falin í frösum um kerfisbreytingar og baráttu gegn fúski. Við þurfum róttækni.

 

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×